Breytingar á skráningardögum í leikskólum Suðurnesjabæjar skólaárið 2025-2026
Suðurnesjabær hefur ákveðið að gera breytingar á skóladagatölum leikskólanna fyrir skólaárið 2025-2026. Breytingarnar eru liður í að ná markmiðum nýrrar mennta- og tómstundastefnu Suðurnesjabæjar. Þessar breytingar voru samþykktar á fundi bæjarstjórnar þann 5. mars 2025. Áður höfðu fræðsluráð og bæjarráð fjallað um málið og samþykkt.
Markmið með breytingunum er að koma til móts við betri vinnutíma starfsfólks samkvæmt kjarasamningum og að standa vörð um faglegt starf leikskólanna. Í vetur hefur verið unnið með tilraunaverkefni þar sem 11 skráningardagar voru í boði í vetrarfríum grunnskólanna, í kringum jól og áramót og í dymbilviku.
Næsta skólaár verður leikskólinn lokaður í fjóra daga í kringum jól og áramót og boðið verður upp á sjö skráningardaga; tvo daga í kringum vetrarleyfi grunnskóla að hausti, tvo daga í kringum vetrarleyfi grunnskóla að vori og þrjá daga í dymbilviku. Að auki verður boðið upp á val að nýta sér dvalartíma til kl. 14:00 á föstudögum gegn vægara gjaldi en áfram verður hægt að velja dvalartíma til kl. 16:00.
Skráningardagar veita foreldrum tækifæri á að lækka leikskólagjöld og auðvelda stjórnendum skóla að skipuleggja betri vinnutíma starfsfólks. Breytingarnar eru gerðar með hagsmuni barna, foreldra og starfsfólks að leiðarljósi og verða kynntar foreldrum núna og nánar næstkomandi haust.