Fara í efni

Ársreikningur Suðurnesjabæjar 2020 samþykktur samhljóða

Ársreikningur Suðurnesjabæjar 2020 samþykktur samhljóða

Ársreikningur Suðurnesjabæjar fyrir árið 2020 var samþykktur samhljóða á fundi bæjarstjórnar þann 5. maí sl.  Rekstur og fjárhagur á árinu 2020 mótaðist mjög af afleiðingum heimsfaraldurs Covid-19, sem meðal annars birtust í samdrætti atvinnulífs og miklu atvinnuleysi sem hafði þær afleiðingar að tekjur af útsvari urðu mun minni en áætlað hafði verið.  Einnig féllu til ýmis ófyrirséð útgjöld vegna faraldursins og viðbragða við afleiðingum hans.  Bæjarstjórn ákvað í upphafi faraldursins að halda uppi fullri þjónustu við íbúa og draga ekki úr fyrirhugðum framkvæmdum og fjárfestingum, á þeirri forsendu að um tímabundið ástand væri að ræða.  Þó svo rekstrarafkoma ársins 2020 sé mun lakari en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir, þá er rekstrarafkoma ársins mjög viðunandi miðað við aðstæður.  Við afgreiðslu ársreiknings þakkaði bæjarstjórn starfsfólki sveitarfélagsins fyrir frábært framlag þeirra við krefjandi og erfiðar aðstæður vegna Covid-19, bæði við rekstur sveitarfélagsins, en ekki síður við að takast á við margskonar áskoranir sem upp hafa komið vegna Covid-19.

Heildartekjur A-hluta bæjarsjóðs voru 4.098,1 milljónir króna og í samanteknum reikningi A og B hluta 4.313,7 milljónir.  Heildargjöld A hluta voru 3.655,2 milljónir og í samanteknum reikningi A og B hluta 3.888,1 milljónir.  Rekstrarafkoma fyrir afskriftir var 343 milljónir í A hluta, en 425,6 milljónir í samanteknum reikningi A og B hluta.  Rekstrarniðurstaða A-hluta er afgangur að fjárhæð 40,8 milljónir króna. Rekstrarniðurstaða í samanteknum reikningsskilum A og B hluta, er rekstrarafgangur 9,6 milljónir króna. 

Heildareignir í samanteknum reikningsskilum A og B hluta eru 8.561,5 milljónir króna. Heildarskuldir og skuldbindingar eru 4.481,9 milljónir króna. Lífeyrisskuldbinding hækkar frá árinu 2019 og er 1.028,4 milljónir króna. Langtímaskuldir við fjármálastofnanir eru 2.722 milljónir króna og eru næsta árs afborganir langtímalána 257,7 milljón króna. Eigið fé í samanteknum reikningsskilum er 4.079,7 milljónir króna og er eiginfjárhlutfall 56,1%. 

Skuldaviðmið A- og B-hluta skv. 14. gr. reglugerðar 502/2012 er 64,8 %. 

Rekstur í samanteknum reikningsskilum A og B hluta skilaði 449,3 milljónum króna í handbært fé frá rekstri sem er 10,5% af heildartekjum. 

Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum í samanteknum reikningsskilum A og B hluta nam 403,5 milljónum króna á árinu 2020. 

Á árinu 2020 voru tekin ný langtímalán að fjárhæð 400 milljónir króna.

Handbært fé jókst um 248,7 milljónir króna og var handbært fé í árslok 2020 alls 748,3 milljónir króna. 

Við samanburð á upphaflegri fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 sem var samþykkt í bæjarstjórn í desember 2019 og niðurstöðum ársreiknings 2020, kemur í ljós að meta má áhrif Covid-19 að fjárhæð um 165 milljónir króna.  Annars vegar vegna minni útsvarstekna og hins vegar vegna beinna útgjalda til að bregðast við áhrifum faraldursins.