Fara í efni

Afmæli og starfsmönnum þakkað fyrir vel unnin störf

Afmæli og starfsmönnum þakkað fyrir vel unnin störf

Í dag 10. júní, á þriggja ára afmælisdegi Suðurnesjabæjar, var 14 fyrrverandi starfsmönnum Suðurnesjabæjar færðar þakkir fyrir vel unnin störf í þágu sveitarfélagsins. Við þetta tilefni var boðið til kaffisamsætis í boði bæjarstjórnar í Vörðunni, Ráðhúsi Suðurnesjabæjar, í Sandgerði. Magnús Stefánsson, bæjarstjóri, flutti ávarp og afhenti starfsmönnum sem allir hafa unnið hjá sveitarfélaginu í tíu ár eða lengur og ljúka störfum vegna aldurs, gjafabréf og afsteypur af verkum Ásmundar Sveinssonar. Um er að ræða hóp starfsmanna sem lokið hafa störfum frá því Suðurnesjabær varð til, 10. júní 2018.  Þá lék Halldór Lárusson, tónlistarmaður og skólastjóri Tónlistarskóla Sandgerðis, á HandPan.

Við þetta sama tilefni var ljósmyndavefur Suðurnesjabæjar opnaður formlega. Vefurinn er gjöf Jóhanns Ísbergs til sveitarfélagsins og hefur að geyma safn mynda frá Suðurnesjabæ og gömlu sveitarfélögunum, Garði og Sandgerði. Vefurinn sem nú ber heitið Suðurnesjamyndir býður nú þess stóra verkefnis að verða mikilvægt gagnasafn heimilda sem með tímanum mun stækka jafnt og þétt.

Dagurinn hófst með þeim skemmtilega hætti að börn af leikskólanum Gefnarborg heimsóttu bæjarstjóra og afhentu honum ljóðabók og buðu á ljósmyndasýningu Gefnarborgar. Tilefnið er 50 ára afmæli Gefnarborgar sem er einnig í dag 10. júní.

Meðfylgjandi eru myndir frá deginum.