Fara í efni

Bæjarráð

150. fundur 11. september 2024 kl. 15:30 - 17:33 í Ráðhúsinu í Garði
Nefndarmenn
  • Sigursveinn Bjarni Jónsson formaður
  • Einar Jón Pálsson varaformaður
  • Laufey Erlendsdóttir aðalmaður
  • Anton Kristinn Guðmundsson áheyrnarfulltrúi
  • Magnús Stefánsson bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Árni Gísli Árnason sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Fjárhagsáætlun 2025-2028

2405023

Lögð fram drög að verkáætlun við vinnslu fjárhagsáætlunar. Einnig lögð fram fyrstu drög að tekjuáætlun. Kjartan Ingvarsson sérfræðingur fjármála sat fundinn undir þessum dagskrárlið.

Afgreiðsla:
Lagt fram.

2.Gervigrasvöllur - hönnun og framkvæmdir

2408077

Minnisblað bæjarstjóra um verðkönnun varðandi hönnun gervigrasvallar.
Afgreiðsla:
Samþykkt samhljóða að fela bæjarstjóra að eiga viðræður við VSÓ Ráðgjöf um hönnun gervigrasvallar.

3.HB64 - Grænn vistiðngarður

2402073

Minnisblað frá bakhjarlahópi HB64, um stöðu verkefnisins og tillögum um næstu skref.
Afgreiðsla:
Samþykkt samhljóða að bæjarráð gerir ekki athugasemdir við tillögur um framhald á verkefninu. Samþykkt samhljóða að vísa tillögu um undirbúning að vinnslu deiliskipulags til umfjöllunar hjá framkvæmda-og skipulagsráði. Einnig samþykkt samhljóða að skoðaðir verði möguleikar á að samræma gjaldskrár á þróunarsvæðinu HB64.

4.Almenningssamgöngur í Suðurnesjabæ

2203012

Minnisblað sviðsstjóra stjórnsýslu-og fjármálasviðs varðandi fyrirkomulag á styrkjum og afsláttum vegna almenningssamgangna fyrir börn og ungmenni í Suðurnesjabæ.

Afgreiðsla:
Samþykkt samhljóða að fela sviðsstjóra stjórnsýslu-og fjármálasviðs að vinna málið áfram og leggja fyrir bæjarráð tillögu um útfærslu.

5.Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna

2409048

Erindi fulltrúa B-lista, ósk um að bæjarráð fjalli um innleiðingu á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hjá Suðurnesjabæ.
B-listi leggur fram eftirfarandi bókun og tillögu varðandi innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hjá Suðurnesjabæ:

Bókun:
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur á Íslandi árið 2013. Í kjölfarið hefur eftirspurn eftir fræðsluefni og stuðningi við innleiðingu hans í sveitarfélögum aukist verulega. Sveitarfélög gegna lykilhlutverki í að innleiða sáttmálann, þar sem þau sinna stórum hluta þeirrar þjónustu sem hefur áhrif á daglegt líf barna og ungmenna. Í því samhengi hófst samstarfsverkefni UNICEF á Íslandi og umboðsmanns barna árið 2016, sem kallast Barnvæn sveitarfélög. Markmiðið er að aðstoða sveitarfélög við að innleiða Barnasáttmálann, til að tryggja að hagsmunir barna séu miðpunktur í ákvörðunum og þjónustu þeirra.
Frá upphafi verkefnisins hafa 23 sveitarfélög tekið þátt í því og unnið markvisst að því að gera samfélög sín barnvæn. Sveitarfélög sem þegar eru þátttakendur í verkefninu eru meðal annarra Sveitarfélagið Vogar, Akranes, Grundarfjörður, Akureyri, Kópavogur, Reykjanesbær, Hafnarfjörður, og fleiri. Þessi sveitarfélög hafa sett sér það markmið að innleiða Barnasáttmálann sem lykilviðmið í stefnumótun og þjónustu og tryggja þannig að réttindi barna séu virt og vernduð.

Tillaga:
B-listi leggur því til að Suðurnesjabær hefji markvissa innleiðingu á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í sveitarfélaginu og taki þátt í verkefninu Barnvæn sveitarfélög. Jafnframt er lagt til að erindinu verði vísað til Fræðsluráðs og Fjölskyldu- og velferðarráðs til umsagnar, sem síðan verði sent til bæjarráðs til frekari ákvörðunar.
Með þessari innleiðingu verður tryggt að sjónarmið barna verði höfð að leiðarljósi í öllum verkefnum og ákvörðunum sveitarfélagsins, og stuðlað að aukinni velferð barna í samfélaginu.


Afgreiðsla:
Bæjarráð samþykkir að fresta afgreiðslu tillögunnar þar til fagleg umfjöllun hefur farið fram í Fjölskyldu- og velferðarráði og Fræðsluráði, umfang verkefnisins metið og kostnaðargreint.

Fundi slitið - kl. 17:33.

Getum við bætt efni síðunnar?