Fara í efni

Aðgerðastjórn

17. fundur 05. október 2020 kl. 08:30 - 11:00 Ráðhúsinu Garði
Nefndarmenn
  • Magnús Stefánsson bæjarstjóri
  • Bergný Jóna Sævarsdóttir sviðsstjóri stjórnsýslusviðs
  • Guðrún B Sigurðardóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs
  • Jón Ben Einarsson sviðsstjóri skipulags-og umhverfissviðs.
Fundargerð ritaði: Bergný Jóna sviðsstjóri stjórnsýslusviðs

Um miðnætti tók gildi neyðarstig almannavarna. Jafnframt tóku þá gildi reglur um smitvarnir, svo sem
um hámarksfjölda fólks á einum stað/rými o.fl. Aðgerðastjórn fór yfir þær reglur sem tóku gildi um sl
miðnætti. Von er á sérstökum reglum varðandi íþrótta-og menningarstarfsemi í dag, einnig varðandi
félagsstarf unglinga og eldri borgara.


Þær breytingar á reglum sem tóku gildi um miðnætti hafa ekki bein veruleg áhrif á starfsemi
sveitarfélagsins. Hins vegar hefur leikskólinn Sólborg hólfað sína starfsemi niður, auk þess sem gerðar
hafa verið ráðstafanir varðandi móttöku barna. Starfsemi fjölskyldusviðs hefur verið skipt upp, hluti
starfsmanna nýtir Skerjaborg m.a. til viðtala við skjólstæðinga og hluti starfsmanna starfar heima a.m.k.
að hluta. Með þessu er m.a. verið að draga úr umsvifum og samveru starfsmanna í Vörðunni.


Íþróttamiðstöðvarnar hafa lokað líkamsræktaraðstöðunum og fara eftir reglum varðandi
fjöldatakmarkanir í sundlaugum.


Ákveðið að minnka opnunartíma í ráðhúsunum, tímabundið verði opið kl. 11:00 til 13:00 alla virka daga.
Þeir einstaklingar sem koma í ráðhúsin verði skyldaðir til að bera andlitsgrímur. Íbúum og þeim sem eiga
erindi í ráðhúsin verði bent á að nota síma eða tölvupóst, einnig verði hægt að bóka sérstaka viðtalstíma.


Samgangur starfsfólks milli ráðhúsanna í Garði og Sandgerði verður í lágmarki. Einnig að gerðar verði
ráðstafanir til að fólk sem kemur inn í ráðhúsin hafi ekki aðgang inn í skrifstofurýmin, nema í sérstökum
tilfellum og eftir leiðsögn viðkomandi starfsmanna. Gætt verði að því að gestir sem koma inn í ráðhúsin
hafi ekki óheftan aðgang að kaffistofum starfsfólks, sem verði aðeins notaðar af starfsfólki í viðkomandi
ráðhúsi.


Lögð verði rík áhersla á að allt starfsfólk gæti sérstaklega að smitvörnum, jafnt á vinnustað sem utan
vinnutíma og enginn mæti til vinnu ef viðkomandi finna minnstu einkenni veikinda. Allir eiga að hafa
aðgang að andlitsgrímum, sem eru í birgðastöð í ráðhúsinu í Garði.


Ef einstaka starfsmenn ráðhúsanna óska sérstaklega eftir því að vinna heima, þá verði slík tilvik skoðuð
með jákvæðum augum.


Starfsfólk Suðurnesjabæjar, íbúar og gestir eru beðnir um að fylgja leiðbeiningum og tilmælum um
almennar einstaklingsbundnar smitvarnir og sameinast um nauðsynlegar aðgerðir gegn Covid-19.

Getum við bætt efni síðunnar?