Fara í efni

Pistill um skólastarf leik- grunn- og tónlistarskólanna árið 2022

Pistill um skólastarf leik- grunn- og tónlistarskólanna árið 2022

Skólastarf í Suðurnesjabæ
Í Suðurnesjabæ eru tveir grunnskólar, Gerðaskóli og Sandgerðisskóli, tveir einkareknir leikskólar, Gefnarborg og Sólborg og tveir tónlistarskólar. Viðmið um gæði skólastarfs þarf að vera sýnilegt og ávallt í endurskoðun. Skólarnir í Suðurnesjabæ hafa unnið mikið og metnaðarfullt starf og á nýju ári er gott að líta yfir farinn veg, mynda nýja sýn og skapa væntingar til betra samfélags. Við þurfum að grípa þau tækifæri sem verða á vegi okkar og varða leiðina að farsæld allra barna.

Grunnskólastarfið
Markmið grunnskóla samkvæmt grunnskólalögum er að stuðla að alhliða þroska nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi. Starfsfólk nálgast nemendur á einstaklingsmiðaðan hátt og byggir starfsemina á hefðbundnum námsgreinum eins og íslensku, stærðfræði, náttúru- og samfélagsgreinum, erlendum tungumálum, íþróttum og list- og verkgreinum. Allt árið er skólastarfið brotið upp með ýmsum viðburðum eins og þemadögum, árshátíðum og Litlu og Stóru upplestrarkeppninni. Skólastarfið árið 2022 litaðist af metnaði og fjölbreyttum verkefnum í grunnskólunum. Gerðaskóli og Sandgerðisskóli tóku báðir þátt í Samrómi lestrarkeppni grunnskólanna með framúrskarandi árangri. Nemendur tóku þátt í Friðarhlaupinu sem er alþjóðlegt kyndla boðhlaup með friðarboðskap, Ólympíuhlaupi ÍSÍ og Göngum í skólann.

Nemendur úr Sandgerðisskóla unnu aðalverðlaun í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna annað árið í röð með hugmynd sinni um hjálparljós í kennslustundum. Hugmyndin var ein af mörg hundruð hugmyndum sem bárust í keppnina sem fram fór í Háskóla Íslands. Einnig tók Sandgerðisskóli þátt í First Lego League sem er alþjóðleg keppni sem nær til yfir 100.000 ungmenna í 45 löndum víða um heim. Þá tóku nemendur þátt í verkefninu Float Your Boat sem er samþætt samfélags- og náttúrugreinum og er vísindalegt verkefni í samstarfi við háskóla í Washington DC til vitundarvakningar um hlýnun jarðar. Skólinn var þátttakandi í skólashreysti, nemendur í 9. bekk fóru til Slóvakíu á vegum Erasmus+ verkefnis og áttu þar þroskandi samverustundir með vinum sínum í framandi landi. Skólaþing Sandgerðisskóla bar yfirskriftina
,,Hvernig gerum við gott skólastarf enn betra“. Leiksýningin Áfram Latibær var sett upp með glæsibrag og vettvangs- og vorferðir nemenda voru fjölbreyttar.

Gerðaskóli byrjaði með verkefnið Gangbrautavinir á unglingastigi en þar tengjast eldri nemendur þeim yngri, fræða þá og fylgja yfir Garðbrautina fyrst á morgnana. Nemendur í 6. bekk voru í samskiptum við nemendur í Frakklandi í gegnum netið og bréfaskriftir. Bókasafnið byrjaði að bjóða upp á skemmtilega bókaklúbba og biðu nemendur spenntir á morgnana eftir því að fá nýja bók. 5. Bekkur tók þátt í bókamerkjaskiptum sem var verkefni á vegum Alþjóðasamtaka bókavarða.
Velferðarkennslan festi sig í sessi en nemendur í 3. – 6. bekk fengu kennslu í slökun, teygjum og hugleiðslu. Skólinn fékk einnig styrk úr Sprotasjóði fyrir verkefnið nemendalýðræði sem er ætlað að byggja upp starfsemi nemendafélagsins og þjálfa nemendur til lýðræðislegrar þátttöku. Gerðaskóli bauð foreldrum og öðrum áhugasömum á skólaþing í nóvember með yfirskriftinni „Jákvæður skólabragur, skólareglur og viðbrögð“. Í október varð Gerðaskóli 150 ára að því tilefni var hátíð í skólanum þar sem forsetinn, Guðni Th. Jóhannesson heiðraði skólann með nærveru sinni og flutti ræðu til skólasamfélagsins. Skólinn fékk góðar gjafir og má þar nefna útieldstæði, leirbrennsluofn, gjafabréf fyrir spilum og þrívíddarprentara sem nýtast vel í kennslu með nemendum.

Fræðslusvið Suðurnesjabæjar hélt utan um verkefnið SKÓLASLIT 2:DAUÐ VIÐVÖRUN sem unnið var í samstarfi við rithöfundinn Ævar Þór Benediktsson og myndskreytinn Ara Yates. Markmið SKÓLASLITA voru að búa til nýstárlega lestrarupplifun fyrir nemendur á miðstigi, hlusta á hugmyndir þeirra og fá innsýn í hugarheim og hugmyndir varðandi nálgun á lestri. Yfir 100 skólar á landinu tóku þátt í verkefninu og var bókin SKÓLASLIT gefin út á árinu sem er afrakstur verkefnisins.

Leikskólastarfið
Leikskólinn Gefnarborg í Garði byggir starf sitt á sterkum grunni. Þegar litið er yfir árið þá er starf leikskólans í mikilli grósku. Leikskólinn er þátttakandi í Erasmus+ verkefni sem skipaði stóran sess í starfinu. Áherslur verkefnisins voru útivera og skynjun. Tvö smáhýsi á skólalóðinni Töfraborg voru reist og gaf skólastarfinu þann möguleika að starfsmaður sem sinnir þar útinámi hefur góða aðstöðu og getur boðið börnunum í leik með ýmis konar efnivið. Önnur skemmtileg nýjung sem viðbót við útiveru og skynjun var, þegar keypt voru nokkur pör af gönguskíðum fyrir börnin og starfsfólk. Gönguskíði eru kjörin til að efla og æfa samhæfingu, jafnvægi, vöðva og liðskyn. Flest börnin höfðu aldrei stigið á gönguskíði og gleðin skein úr hverju andliti við upplifunina.

Leikskólinn Sólborg fékk fræðslu frá Glóð og Loga hjá Brunavörnum Suðurnesja, börnin prófuðu brunaslönguna á meðan kveikt var á ljósum og sírenum slökkviliðsbílsins. Nemendur leikskólans tóku þátt í árshátíð Sandgerðisskóla og fluttu atriði sitt fyrir fullum sal. Börnin buðu einnig nemendum í 1.bekk úr Sandgerðisskóla í heimsókn til að þakka fyrir veturinn. Þá var farið í útskriftarferð í Vatnaskóg og útskriftarhátíð elstu barna var haldin við hátíðlega athöfn. Á degi íslenskrar náttúru fóru börnin í Þekkingarsetrið þar sem þau fengu fræðslu og fóru í leiki. Á degi íslenskrar tungu komu nemendur úr Sandgerðisskóla og lásu fyrir börnin. Foreldrafélagið bauð til jólaskemmtunar en þangað mættu Skjóða og jólasveinar. Margrét Pála og Laufey fiðluleikari komu fyrir jólin og spiluðu jólalög. Hrekkjavaka, öskudagur, bolludagur og sprengidagur voru allir haldnir hátíðlegir ásamt því að leikskólinn tók þátt í bæjarhátíð Suðurnesjabæjar.

Tónlistarskólarnir
Tónlistarskólarnir í Suðurnesjabæ þjónustuðu hátt í 250 einstaklinga á síðasta ári. Einkanemendur voru 140 ásamt forskólanemendum, hljóðfæravalsnemendum og kórum. Nemendur voru á öllum aldri, lang flestir á grunnskólaaldri. Nemendur komu fram á tónfundum og tónleikum innan skólanna; jólatónleikum, vortónleikum, minni nemendatónleikum og við ýmiss tækifæri í bæjarfélaginu. Leikið var á jólaballi kvenfélags, fyrir félagsstarf eldri borgara, Lions og fleiri félagasamtök. Sameiginlegir söngtónleikar klassísku deildar voru haldnir í Útskálakirkju ásamt því að kórar og nemendur léku og sungu við messur og aðventuhátíð. Skólarnir studdu einnig dyggilega við ungt og upprennandi tónlistarfólk í bænum með því að opna skólana fyrir æfingar og upptökur.

Hæfni okkar til að afla þekkingar og öðlast færni til að nýta okkur þekkinguna er mikilvæg og það er okkar í skólunum og samfélaginu að laða það besta fram hjá hverju og einu barni til að það fái bestu mögulegu menntun. Það er afar mikilvægt að halda á lofti því góða starfi sem unnið er í skólasamfélaginu með metnaðarfullu starfsfólki, góðum stjórnendum og einstökum nemendum. Við erum stolt af skólunum okkar og lítum framtíðina björtum augum. Við viljum vera barnvænt samfélag sem menntar börn og veitir þeim tækifæri til að velja þá leið sem þeim hugnast best. Við viljum líka að börnin njóti barnæskunnar, fái að tilheyra og vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Að veita börnum okkar gæða menntun í framúrskarandi skólum mun skila sér í betra samfélagi sem er sveipað hamingju og gleði.

Fyrir hönd skólastjóra í leik- grunn- og tónlistarskólum
Bryndís Guðmundsdóttir
Deildarstjóri fræðsluþjónustu Suðurnesjabæjar