Stefnumótun um flugsamgöngur

Á fundi bæjarráðs Suðurnesjabæjar í dag, 14. ágúst, var fjallað um drög að flugstefnu fyrir Ísland. Suðurnesjabær mun senda eftirfarandi umsögn um málið í samráðsgátt stjórnvalda þar sem öllum er gefinn kostur á að koma á framfæri umsögnum um málið. 

Keflavíkurflugvöllur er einn mikilvægasti hlekkurinn í samgöngukerfi Íslands. Fyrir Ísland sem er staðsett á miðju Atlantshafi eru greiðar flugsamgöngur til og frá landinu ein mikilvægasta forsenda þess að samfélagið geti þróast og byggst upp í takti við önnur lönd sem við berum okkur saman við. Einnig eru greiðar flugsamgöngur ein mikilvægasta forsenda þess að atvinnulíf í landinu geti átt sem mest og best viðskipti við önnur lönd. Að því leyti fagnar bæjarráð þeim áherslum sem birtast í drögum að flugstefnu, þar sem tekið er mið af þeim miklu möguleikum sem felast í því að efla flugsamgöngur um Keflavíkurflugvöll enn frekar, sem tengiflugvallar, og til farþega-og fraktflutninga til og frá landinu.  Frekari uppbygging Keflavíkurflugvallar felur því í sér mikil tækifæri fyrir landið allt. Bæjarráð leggur því áherslu á að þau áform sem eru um frekari uppbyggingu Keflavíkurflugvallar komist til framkvæmda.

Góðir og fullnægjandi varaflugvellir eru mikilvægir út frá flugöryggi alþjóðaflugs. Bæjarráð Suðurnesjabæjar leggur áherslu á að nauðsynleg uppbygging varaflugvalla verði ekki fjármögnuð með fjármagni frá rekstri Keflavíkurflugvallar, slíkt myndi hafa veruleg neikvæð áhrif á nauðsynlega uppbyggingu Keflavíkurflugvallar og þar með leiða til þess að mikilvæg tækifæri fari forgörðum ef litið er til alls atvinnulífs í landinu. Þess vegna fagnar bæjarráð því að í niðurstöðum starfshóps sem vann drög að flugstefnu er áhersla á að uppbygging varaflugvalla verði ekki fjármögnuð af rekstri Keflavíkurflugvallar.

Fyrir þjóð sem byggir jafn mikið á flugsamgöngum og Íslendingar er ein grunn forsenda að búa að öflugu flugnámi, rétt eins og viðurkennt hefur verið um langa tíð að mikilvægt sé að bjóða upp á öflugt skipstjórnar- og vélstjórnarnám fyrir fiskiskipaflota þjóðarinnar. Bæjarráð Suðurnesjabæjar leggur áherslu á að Keilir, Flugskóli Íslands er stærsti flugskóli landsins, með höfuðstöðvar á Ásbrú. Mikil þörf er fyrir vel menntaða flugmenn og blasir við að sú þörf muni aukast. Í drögum að flugstefnu er lögð áhersla á aukna menntun og nýsköpun í þessari mikilvægu grein og því ber að fagna. Bæjarráð Suðurnesjabæjar leggur áherslu á að flugnám verði einn hluti menntakerfisins og opnað verði fyrir aðgengi flugnema að námslána- og styrkjakerfi eins og á við um annað lánshæft nám.

Í drögum að flugstefnu er ekki með beinum hætti tekin afstaða til hugmynda um nýjan alþjóðaflugvöll í Hvassahrauni. Bæjarráð minnir á að sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa ekki haft neina aðkomu að umfjöllun um þetta mál og hvetur samgönguyfirvöld til þess að sveitarfélögin fái tækifæri til að taka eðlilegan þátt í umfjöllun um málið, ef svo fer að framhald verði á því. Jafnframt bendir bæjarráð á að ómarkviss umræða um mögulega uppbyggingu flugvallar í næsta nágrenni Keflavíkurflugvallar skapi óvissu og sé til þess fallin að draga úr nauðsynlegum framkvæmdum og fjárfestingum við frekari uppbyggingu Keflavíkurflugvallar.

Í kafla 21 er fjallað um betri samskipti milli aðila í flugi og flugtengdri þjónustu, með því að komið verði á umræðu-og samstarfsvettvangi aðila. Bæjarráð leggur til að auk þeirra aðila sem taldir eru til á bls. 87 eigi fulltrúar sveitarfélaga í nærsamfélagi Keflavíkurflugvallar aðild að slíkum vettvangi.