Ný Sóknaráætlun fyrir Suðurnes

Undirritaður hefur verið samningur um nýja sóknaráætlun fyrir Suðurnes. Unnið hefur verið eftir sóknaráætlunum landshlutanna undanfarin ár samkvæmt sérstökum samningum milli ríkisvaldsins og sveitarfélaga í hverjum landshluta fyrir sig með það að markmiði að efla byggðaþróun. Í samningum um sóknaráætlun taka sveitarfélög til sín aukna ábyrgð á sviði byggða-og samfélagsþróunar í sínum landshlutum. 

Samkvæmt samningnum um nýja sóknaráætlun fyrir Suðurnes, leggur ríkissjóður til kr. 84.207.273 á árinu 2020 og sveitarfélögin á Suðurnesjum kr. 9.000.000. Þessu fjármagni er ráðstafað til ýmissa verkefna sem falla að þeim markmiðum sem sett eru í sóknaráætlun. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum er samningsaðili fyrir hönd sveitarfélaganna á Suðurnesjum og sér um umsýslu verkefnisins, svo sem að auglýsa eftir umsóknum um framlög til verkefna, úrvinnslu þeirra og úthlutanir.

Sóknaráætlun Suðurnesja er í lokavinnslu þessa dagana og verður aðgengileg í samráðsgátt þar sem íbúar Suðurnesja geta farið yfir hana og komið á framfæri umsögnum eða athugasemdum áður en lokahönd verður lögð á áætlunina. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) mun auglýsa það.

Undanfarin ár hafa einstök verkefni á vegum aðila í Suðurnesjabæ fengið framlög og styrki á grundvelli sóknaráætlunar. Þau verkefni eru af ýmsum toga og ná m.a. til atvinnusköpunar, menningarmála og varðveislu menningarverðmæta, svo dæmi séu nefnd.

Samningur um Sóknaráætlun fyrir Suðurnes var undirritaður í Ráðherrabústaðnum þann 12. nóvember sl. af Einari Jóni Pálssyni formanni Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og forseta bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar fyrir hönd Suðurnesja, Sigurði Inga Jóhannssyni samgöngu-og sveitarstjórnarráðherra og Lilju Dögg Alfreðsdóttur mennta-og menningarmálaráðherra.