Jóla- og ljósahús Suðurnesjabæjar 2019

Afar fagurt er um að litast í bæjarfélaginu sem nú skartar sínu fegursta. Bæjarbúar hafa margir hverjir tendrað jólaljós í gluggum sínum sem falla einstaklega vel að umhverfinu. Sum heimili eru þó skreyttari en önnur og hafa þar vakið verðskuldaða athygli. Jólahúsanefnd sem bæjarráð Suðurnesjabæjar skipaði hefur nú farið yfir tilnefningar sem bæjarbúar hafa sent inn um jóla- og ljósahús Suðurnesjabæjar. Ásamt því fór nefndin í skiplagðar ferðir um bæjarfélagið og skoðaði skreytingar. Samróma niðurstaða nefndarinnar var að velja Garðbraut 77 sem ljósahús Suðurnesjabæjar 2019 og Skagabraut 16 sem jólahús Suðurnesjabæjar 2019. Íbúar þessara húsa voru boðaðir í verðlaunaafhendingu á bæjarskrifstofu þar sem þau fengu veglegan blómvönd og viðurkenningarskjal ásamt 20 þús. kr. gjafabréfi sem gildir sem greiðsla á orkunotkun frá HS Veitum.

Nefndin þakkar HS Veitum fyrir stuðningin ásamt bæjarbúum fyrir góða þátttöku í valinu með von um gleðileg jól og gæfuríkt komandi ár.