Suðurnesjabær eins árs

Þann 10. júní 2018 hóf sveitarfélagið Suðurnesjabær starfsemi, eftir að hafa orðið til við sameiningu sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar. Suðurnesjabær á því eins árs afmæli 10. júní 2019.

Þetta fyrsta starfsár sveitarfélagsins hefur verið viðburðaríkt og annasamt, en um leið mikilvægt þroskaskeið sem mótar að miklu leyti framtíðar starfsemi Suðurnesjabæjar þar sem þjónusta við íbúana er höfð í fyrirrúmi. Við þessi tímamót er vert að líta til baka og rifja upp örfá en mikilvæg mál sem unnið var að á þessu fyrsta ári í æviskeiði Suðurnesjabæjar.

Íbúar Suðurnesjabæjar kusu nýja bæjarstjórn í lok maí 2018 og tók hún við stjórnun sveitarfélagsins þann 10. júní 2018, sama dag og sameinað sveitarfélag hóf formlega starfsemi. Alls voru kjörnir níu fulltrúar í bæjarstjórn og hófu þeir frá fyrsta degi að vinna úr þeim tillögum sem lágu fyrir eftir mikla vinnu samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar. Á fyrstu vikum þurfti ný bæjarstjórn að taka margar ákvarðanir og starfsfólkið að vinna úr þeim eftir föngum. Áhersla var lögð á að starfsemin og þjónustan væri sem best og allt gengi sem hnökralausast fyrir sig gagnvart íbúum. Margir starfsmenn þurftu að aðlagast nýju starfsumhverfi og leggja mikla vinnu af mörkum til þess að ná settum markmiðum. Þegar litið er til baka má fullyrða að afburða vel hafi tekist til við þessi verkefni, sérstaklega á síðari hluta árs 2018 þegar mest álag var á öllu þessu fólki. Bæjarstjórar gömlu sveitarfélaganna létu báðir af störfum undir lok júní 2018 og ráðinn var bæjarstjóri sem hóf störf um miðjan ágúst. Í millitíðinni hélt ráðgjafi um stýrið og leiddi sveitarfélagið í umboði bæjarstjórnar um nokkurra vikna skeið.

Eitt af stóru verkefnum nýs sveitarfélags var að finna því nafn, því þegar sveitarfélagið hóf starfsemi lá ekki fyrir hvaða nafn það ætti að bera. Það verkefni var ekki leitt til lykta fyrr en í nóvember þegar íbúar kusu milli nokkurra tillagna og nafnið Suðurnesjabær hlaut á endanum afgerandi kosningu. Í framhaldi af því að bæjarstjórnin samþykkti að það skyldi verða nafn sveitarfélagsins var það staðfest af ráðherra sveitarstjórnarmála. Nafnið Suðurnesjabær tók formlega gildi þann 1. janúar 2019. Það var stór og mikilvægur áfangi.  

Í framhaldi af niðurstöðunni um nafn sveitarfélagsins þurfti að gefa Suðurnesjabæ einkenni í formi byggðamerkis. Bæjarstjórn samþykkti samhljóða nýtt byggðamerki í mars sl. Það er ánægjulegt að sjá hve almenn ánægja er með byggðamerkið sem unnið var í samstarfi við Hvíta húsið og hvernig kjörnir fulltrúar voru algjörlega sammála um útfærslu þess. Sú staðreynd hlýtur að skipta sveitarfélagið og íbúa þess miklu máli, ekki síst hvað varðar ímynd sveitarfélagsins.

Fjölmargt fleira mætti nefna af því sem átt hefur sér stað á fyrsta ári Suðurnesjabæjar. Í desember 2018 samþykkti bæjarstjórn fyrstu fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og þann 5. júní sl. samþykkti bæjarstjórn fyrsta ársreikning Suðurnesjabæjar fyrir árið 2018. Hvort tveggja eru merk tímamót og ákveðnar vörður á leið sveitarfélagsins inn í framtíðina. Niðurstöður ársreikningsins eru jákvæðar og ánægjulegar.

Eitt ár er ekki langur tími í ævi sveitarfélags en ef litið er um öxl má segja að ótrúlega mörg verkefni hafi verið leyst og mörg mikilvæg skref hafi verið stigin í mótun Suðurnesjabæjar og samfélagsins til framtíðar. Þeim verkefnum er hvergi nærri lokið. Það er ekki síður mikilvægt verkefni að þróa gott samfélag íbúanna í sveitarfélaginu öllu og er það sameiginlegt verkefni íbúanna, kjörinna fulltrúa og starfsfólks Suðurnesjabæjar. Miðað við hvernig fyrsta árið hefur þróast má fullvíst telja að sá jákvæði andi sem ríkt hefur meðal íbúa muni auðvelda þá vegferð að byggja upp öflugt samfélag til framtíðar, með fyrsta flokks búsetuskilyrðum fyrir íbúa Suðurnesjabæjar. 

Þjóðhátíðardagur Íslendinga verður haldinn hátíðlegur í Suðurnesjabæ. Nemendur og foreldrar 9. bekkja í Gerðaskóla og Sandgerðisskóla annast í sameiningu undirbúning og framkvæmd hátíðahaldanna og er ánægjuleg að sjá að þessi hópur íbúanna tekur höndum saman um þetta verkefni. Íbúar Suðurnesjabæjar eru hvattir til þess að taka virkan þátt í hátíðahöldum og efla þannig samkennd sín á milli en ekki síst vegna þess hve mikilvægt er fyrir okkur Íslendinga að halda á lofti og minnast sjálfstæðis okkar sem þjóðar. Á heimasíðu Suðurnesjabæjar verður hægt að finna dagskrá hátíðahaldanna á þjóðhátíðardaginn 17. júní 2019.

Með afmæliskveðju,

Magnús Stefánsson

bæjarstjóri