Óvissustig vegna austan aftakaveðurs föstudaginn 14. febrúar

Þar sem Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi almannavarna fyrir allt landið á morgun, föstudag 14. febrúar, biðjum við alla um að fara varlega, gæta að lausamunum og fylgjast með veðurspám og tilkynningum.

Foreldrar og forráðamenn skólabarna eru hvattir til að fylgjast með veðurspám og leiðbeiningum Almannavarna áður en skólahald hefst á morgun.  Foreldrar leggja sjálfir mat á hvort fylgja þarf börnum úr og í skóla þótt ekki berist sérstakar tilkynningar frá yfirvöldum.  Ef foreldrar telja ekki óhætt að börnin sæki skóla þarf að tilkynna um það viðkomandi skóla og verður litið á slíkt sem eðlileg forföll. 

Þá hvetjum við foreldra og forráðamenn til þess að fylgjast með upplýsingum frá skólum og leikskólum.

Fylgist með frekari upplýsingum frá almannavörnum, á Facebook https://www.facebook.com/Almannavarnir, upplýsingum um veðurspá á www.vedur.is og um færð á vegum á vefsíðu Vegagerðarinnar www.vegagerdin.is

Óvissustigi er lýst yfir þegar grunur vaknar um að eitthvað geti gerst af náttúru- eða mannavöldum, sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar er ógnað. Samráð á milli almannavarna og þeirra stofnana sem málið varðar er aukið.