Breytt starfsemi skóla og íþróttamiðstöðva Suðurnesjabæjar

Vegna samkomubanns, sem tekið hefur gildi, liggur fyrir að gera þarf ýmsar ráðstafanir til að gera breytingar á starfsemi allra skóla í Suðurnesjabæ, sem og íþróttamiðstöðva og félagsmiðstöðva. Stjórnendur hafa meðal annars haft til hliðsjónar viðmið sem Samband íslenskra sveitarfélaga um takmarkanir á skóla-og frístundastarfi vegna COVID-19 sendi sveitarfélögum í gær, sunnudaginn 15. mars.

Í allan dag hefur aðgerðastjórn Suðurnesjabæjar fundað með stjórnendum allra skóla sveitarfélagsins, íþróttamiðstöðva og félagsmiðstöðva, ásamt deildarstjórum viðkomandi málaflokka. Verkefni dagsins hefur verið að leggja lokahönd á verklag og breytta starfsemi þessara stofnana.

Skólarnir koma upplýsingum um breytta starfsemi á framfæri við forráðamenn nemenda.  Upplýsingar um skipulag á starfsemi félagsmiðstöðvanna verða birtar þegar þær liggja fyrir. 

Hér fyrir neðan má nálgast frekari upplýsingar um starfsemina:

Hjá tónlistarskólum Suðurnesjabæjar mun öll hópakennsla falla niður; samspil, kór, forskóli o.s.frv. en einkakennsla heldur áfram.

Einhverjar raskanir geta orðið á einkakennslu og koma kennarar tónlistarskólanna til með að setja sig í samband við nemendur og/eða aðstandendur í þeim tilfellum. Kennsla getur mögulega skerst eitthvað en stjórnendur og starfsfólk reynir að tryggja öllum tónlistarkennslu eftir bestu getu.

Athugið að einungis starfsfólki og nemendum skólanna er heimill aðgangur að skólabyggingum. Engar utanaðkomandi heimsóknir eru leyfðar.

Suðurnesjabær biðst velvirðingar á þeim óþæginum sem framangreindar ráðstafanir hafa í för með sér en við stöndum öll saman um að koma í veg fyrir útbreiðslu smits af völdum COVID-19 veirunnar og vonumst til að líf okkar og starf komist sem fyrst í fyrra horf.

Öll erum við almannavarnir!